<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Núna hef ég loksins gert smá breytingar á blogginu mínu, þó einungis varðandi titil. En þetta er þó byrjun.

Í gær var Morfís. Það var gaman. Saga var dugleg og átti allt gott skilið, enda fékk hún allt gott. Hitt liðið var hins vegar ekkert gott. Ég er enginn ræðusérfræðingur en ég hélt allavega að ræður í Morfískeppni ættu að fjalla um umræðuefnið, en ekki um hvað allir í hinu liðinu eru ljótir, feitir eða vonlausir í að ná sér í maka.

Í vikunni fékk ég fallegt bréf frá Sigrúnu, það var gaman. Hún nefndi nokkur atvik sem við höfum lent í og mér fannst þau fyndin og ég hlakka til að upplifa þau á ný. Ég ætla núna, heltekin af þrá eftir gömlu góðu dögunum, að nefna þau þrjú atvik sem ég hlakka mest til að endurupplifa:

1) Einu sinni var ég heima hjá Sigrúnu. Við áttum örugglega að vera að læra fyrir próf, en þar sem við gátum aldrei lært saman endaði það þannig að ég sofnaði, liggjandi á hliðinni, í sófanum. Svo kom Sigrún að og ákvað að leggjast ofan á mig, líka á hliðinni. Þannig sofnuðum við báðar. Ég get ímyndað mér að þetta leit hálfkjánalega út, en þetta var miklu þægilegra en nokkurn gæti grunað. Svo kom mamma hennar Sigrúnar til okkar, sá þetta og hló að okkur.

2) Eitt sumar kom hún Sigrún í heimsókn til mín. Það var einstaklega gott veður þannig að þegar Sigrún var komin inn til mín ákvað hún að fara úr fötunum og vera bara á nærfötunum. Þannig leið nokkur tími og loks ákvað hún Elísabet Hugrún að koma til okkar líka. Ég, undir áhrifum sólarinnar og sumarsins, stökk út á móti henni þegar hún kom labbandi að húsinu mínu. Sigrún gerði það líka. Þá skelltist útidyrahurðin í og við vorum allar þrjár læstar úti. Sem betur fer voru svaladyrnar opnar og ég bý á fyrstu hæð. Elísabet og Sigrún tóku bekk, báru hann fyrir aftan húsið og notuðu hann til að klifra upp á svalir og komast þannig inn í íbúðina. Þess má geta að Sigrún gerði þetta allt á nærfötunum.

3) Síðasta atvikið er mun einfaldara í framkvæmd en hin, þar sem það felst í því að við Sigrún sitjum inni hjá mér, borðandi lakkrís og drekkandi Ribena og spjöllum og lesum dönsk gelgjublöð sem ég á nóg af eftir árin í Danmörku. Uppáhaldshlutinn af blaðinu er póstkassinn þar sem snarbilaðar danskar gelgjur skrifa um vandamál sín, sem fjalla mest um hvort þær séu of feitar, seinþroska því þær eru með svo lítil brjóst, eða hvenær í ósköpunum þeir eigi að byrja að stunda kynlíf. Stundum skiptum við þó gelgjublöðunum út fyrir Rocky Horror. Það er líka skemmtilegt. Einu sinni festist Sigrún líka undir rúminu mínu. Það var enn skemmtilegra.

Þannig að nú vita það allir, þegar Sigrún kemur aftur mun allt vera morandi í svefni, nærfötum og dönskum gelgjublöðum. Svo má ekki gleyma lakkrís og Ribena.

Þessi færsla var til heiðurs þess að núna er vist Sigrúnar í Ungverjalandi hálfnuð. Hún er góð og fín og ég hlakka til að fá hana aftur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?