<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, október 28, 2005

Fyrr í dag var ég í endajaxlatöku. Núna er einn helmingur andlits míns bólginn og hinn er/var tilfinningalaus. Þetta var samt ekki mjög hræðilegt, ég er bara mjög aum og rúmliggjandi.

Fyrir mjög löngu klukkaði Vala mig, nú mun ég taka þátt í keðjubloggi:

1) Ég þjáist af ekki beint fóbíu fyrir, heldur meira af vanlíðan í lyftum. Hugsanir eins og "Mun hurðin opnast?" og "Ef ekki, hversu lengi þarf ég að vera föst hér?" pína mig í hvert skipti sem ég stíg inn í lyftu. Ef manneskjan/manneskjurnar með mér í lyftunni fara að fíflast eða hoppa fer ég að væla.

2) Þegar ég var u.þ.b. sjö ára smakkaði ég Whiskas kattamat. Hann var eins á bragðið og lyktin af nautatungunum í fermingunni okkar Kötlu.

3) Talandi um fermingu, þá hef ég engan húmor fyrir fermingarmyndunum mínum. Á öllum myndunum þar sem ég sit sést í brókina mína. Svart pils, hvít brók. Mjög smart.

4) Mér líður naktri ef ég er ekki með eyrnalokka. Enda á ég frekar marga. Aðrar stelpur kaupa sér skó, ég kaupi eyrnalokka. Ég sem sagt er alltaf með eyrnalokka. Nema einu sinni, þegar ég fór í bíó og gleymdi að setja þá í mig...það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég fattaði það var að hlaupa heim og setja í mig eyrnalokka (ég bý 2ja mínútna hlaupi frá bíóinu). Ég gerði það samt ekki.

5) Ég er ógeðslega myrkfælin. Ég er ekki hrædd um að skrímsli komi út úr skápnum mínum eða að draugur labbi í gegnum vegginn (ég trúi samt á drauga), heldur líður mér bara hræðilega illa og óöruggri þegar ég er ein uppi í rúmi í myrkri. Þess vegna sef ég alltaf með kveikt ljós.

Annars er ég hress eftir Bandaríkjaferð, New York er ágætisgrey. Fyrir þá sem hafa áhuga eru nokkrar myndir á myndasíðunni minni.

Núna ætla ég að fara að poppa verkjalyf eins og það sé enginn morgundagur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?