<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júlí 28, 2004

Jæja, þá er ég barasta stödd á Akureyri. Hér er ég vegna þess að amma mín er áttræð í dag, og ætlar hún að halda heljarinnar veislu í tilefni af því.
Við fjölskyldan keyrðum þetta á fjórum og hálfum tíma, og fór þessi tími einungis í það að hlusta á tónlist. Allavega hjá mér. Ég get ekki lesið í bíl, þannig að ég hafði ekkert annað val.
En núna er bara geðveikt gott veður, og ég bíð bara þangað til að veislan hefst.
Ó Akureyri, er öllum meiri!

Annars er fólk bara að missa vitið. Tökum sem dæmi atvikið sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Af hverju sker maður leigubílstjóra á háls? Kallinn sem gerði það virtist hafa gert það í einhverju flippi bara, enda var hann undir áhrifum vímuefna. Mér finnst þetta ekkert sniðugt.
Svo var mér um daginn sagt frá einhverjum manni í Frakkalandi sem var í fangelsi, og einn daginn réðst hann á fangavörð og drap hann með gleröskubakka. Svo þegar hinir fangaverðirnir komu á staðinn var gaurinn búinn að opna hauskúpuna á fangaverðinum og var farinn að éta heilann á honum! Mér þætti nú vænt um að vita hvernig hann fór að því að opna hauskúpuna á verðinum.

Já, og þar sem ég er mjög fróð um svona málefni gæti ég haldið áfram mjög lengi, en núna þarf ég að undirbúa mig fyrir afmælið. Sjáumst bara á morgun, því við komum heim í kvöld.

laugardagur, júlí 24, 2004

Jæja, ég er búin að vinna í sirka 12 tíma í dag! Byrjaði daginn klukkan hálf 10, fór svo að vinna klukkan 11. Var þarna í matsalnum að gera voðalega lítið ásamt henni Ylfu, enda laugardagur. Það var bara sett góð tónlist á, og smiðirnir sem eru að vinna þarna innan um okkur í augnablikinu voru í voðalega góðu skapi, fóru að syngja með og allt.
Þær Elísabet og Sigrún komu svo í heimsókn til mín í vinnuna og við settumst út á svalir í smá stund. Svo þurftu þær að fara já.
Svo allt í einu var klukkan að verða 8 og ég bara búin með allt mitt og gat farið. En þá þurfti ég að hjóla heim í flýti og skipta um föt og fara beint í Háskólabíóið að vinna. Var þar til svona hálf 11. Jahá, ég er sem sagt komin með vinnuna í Háskólabíóinu. Jei!

Og nú er komið að kvikmyndagagnrýni kvöldsins:
Um daginn kom hún Vala til mín, og við horfðum á myndina Monster. Hana hefur mig langað til að sjá lengi. Hún vara bara mjög góð, mér leið ekkert illa við að horfa á hana, bara hin fínasta mynd. Samt fannst mér eins og það væri verið að reyna að fá áhorfandann til að fá samúð með morðkvendinu. Mér finnst nú ekki sniðugt að ganga um og skjóta mann og annan.
Svo í gær var bíóferð á King Arthur. Þar var á ferð önnur mynd sem ég hef líka þráð að sjá allavega síðan hún kom í bíó. Ég hafði heyrt að hún væri vond og leiðinleg, en þar er ég nú ekki sammála. Mér fannst þetta hin besta skemmtun, en það er kannski vegna þess að ég þekki mjög lítið söguna um Artúr og hans menn. Ég get ímyndað mér að fólk sem kann söguna er ekki voðalega sátt við myndina, þó hef ég heyrt að þessi mynd eigi að vera voðalega lík sögunni eins og hún er. Allt annað en Troy. Ég er ennþá miður mín eftir þá mynd...
Svo má kannski hafa með að fyrir nokkrum dögum horfði ég aftur á Clockwork Orange. Ég bara næ ekki almennilega að fíla þessa mynd. Nema í þetta skipti hló ég voða mikið. Þetta er nú samt ekki beint hlægileg mynd. Eitthvað er nú bogið við þetta.

Seinna sama kvöldið fór ég í bíltúr með Völu, Mörtu, Ómari og Jósa, sem er nýbúinn að fá bílprófið sitt. Vííííí. Allavega, þeim strákunum fannst voðalega gaman að keyra inn í Fossvogskirkjugarðinn með okkur þrjár í aftursætinu, og gerðist Ómar svo vænn að segja draugasögur. Svo fannst honum fyndið að skrúfa niður gluggana aftur í inni í miðjum kirkjugarðinum, og framkallaði það mikil óp hjá okkur Mörtu. Vil ég bara hér nota tækifærið til að segja: F U!

Annars er ég bara glöð og sátt, kannski ég fari bara upp í rúm, þarf að vera hress fyrir vinnuna á morgun, þessi guðdómlegi fiskur skammtar sig víst ekki sjálfur.

miðvikudagur, júlí 21, 2004



Heill sé þér, þú mikli leður-rokkari! Ó já, Alice Cooper er alveg einstaklega mikill töffari hef ég komist að. Var að hlusta á hann í gær, þetta er svo skemmtilegt. Svona kall sem virðist vera einstaklega hardcore (já, ég sá mynd af honum þar sem hann var að sleikja zombie eða eitthvað) en er það svo eiginlega ekki, allavega eru lögin hans það ekki. En samt, hann er klæddur í leður frá toppi til táar og alveg einstaklega sjarmerandi í framkomu, og þó að lögin hans séu ekki eins hardcore og hann, þá skemmta þau mér svo mikið að ég fæ þrá til að hoppa um allt hverfið!
Og Sigrún, þú talar um klúra rokktexta, hérna er bútur úr laginu Bed of Nails sem fékk mig til að hugsa til þín:
First we're gonna kiss, then we're gonna say dirty little words only lovers say. Rockin' through the night, rollin' on the floor, when they hear us screamin' they'll be breakin' down the door. No one else could make you feel like I do, I do, I do! No one ever gets as deep inside you as I do, baby. Our love is a bed of nails. Love hurts good on a bed of nails. I'll lay you down and when all else fails I'll drive you like a hammer on a bed of nails!

Klúryrði og hávært kynlíf á gólfinu barasta! Þetta er aldeilis klúr rokktexti. Ussussuss. En niðurstaðan er samt að Alice Cooper er mikill töffari.
Þetta var allt sem mig langaði að segja í bili, hafið þið það bara gott og verið stillt.

mánudagur, júlí 19, 2004

Sumarið er tíminn þar sem ég get ekki bloggað. En ég reyni nú samt.
Það var bjórkvöld síðasta föstudag, merkilegt hvað maður skemmtir sér alltaf vel þar.
Sumarið er líka tíminn þar sem maður er í einhverju öðru stuði, allvega finnst mér það. Ég held að það sé sólin, þó hún stingi. Ég lá heillengi í alveg ekta sólbaði um daginn, það var frábært. Svo komu Ómar og Sölvi að sækja mig og við fórum á Austurvöll að hitta Lóu, Aldísi og Völu. Austurvöllur er alveg einstaklega sjarmerandi í sólskini, ég veit ekki alveg hvers vegna. Svo er ég mjög líklega búin að redda mér meiri vinnu, sem afgreiðslustúlka í Háskólabíói. Gott mál.
Annars rölti ég í dag í kirkjugarðinn á Suðurgötu þar sem hún Vigdís er að vinna, ætlaði að láta hana kaupa ís með mér. Þar skoðaði ég margar grafir, kirkjugarðar eru alls ekki óhuggulegir í góðu veðri. Bara svona friðsæl stemmning. Einnig komst ég að því að margar grafir eru merktar Dr. phil og svo einhver nöfn á gaurum. Þannig að hinn eini sanni Dr. Phil heitir þá væntanlega alls ekkert Phil! Þetta vissi ég ekki! En hvað heitir hann þá í alvörunni?
Á sumrin finnst gosdrykkjarinnflutningsfyrirtækjum líka mjög gaman að koma með einhverjar nýjungar.  Síðasta sumar var það vanillu kók (eða er lengra/styttra síðan það var?) og núna er það tvö ný Fanta og Cherry Cola. Við Sigrún höfum lengi verið miklir aðdáendur Cherry Cola og fórum við sérstaka Kringluferð til þess eins að kaupa það. Cherry Cola er svo fáránlega gott. Samt ætla ég ekki að ábyrgjast neitt, mér fannst vanillu kókið líka gott...samt bara ef það var ískalt. En Cherry Cola er öðruvísi. Það er bara gott.
Æji, ég veit ekkert af hverju ég er að reyna að skrifa eitthvað spennandi. Geri þetta bara svo bloggið deyji ekki í sumarfríinu. Mér dettur ekki einu sinni í hug neinn karlmaður í leðurbuxum (jú kannski einn) sem gæti prýtt þessa færslu til að lífga svolítið upp á hana.
Látum þetta bara gott heita í bili, ég þyrfti kannski að fara að sofa, vinna á morgun.
 

fimmtudagur, júlí 15, 2004

Ég er í tölvunni að tala við ömmu mína á MSN. Það finnst mér nokkuð vel gert af hinni 72ja ára gömlu konu. Enda er hún töffari.
Annars er voðalega lítið að gerast í kringum mig þessa dagana. Er bara vinnandi með mínum frábæru vinnufélögum, og er hver dagur partý. Áðan vorum við Ylfa til dæmis að blasta Queen og þar á eftir gæða 80's slagara, og vakti það mikla lukku hjá þeim læknum, hjúkkum og smiðum sem komu við í matsal Landsspítalans. Ég bíð bara eftir þeim degi þar sem allir henda frá sér því sem þeir eru með í höndunum og slegið verður upp heljarinnar gleðskap í matsalnum. Það gæti vel gerst. Hins vegar er hún Auður hætt að vinna, og þar með lýkur kvöldunum okkar þar sem við sátum og ræddum um allt sem máli skiptir í þessum heimi, mest Bítlana þó. Og svo skömmtuðum við mat inn á milli. Þessum kvöldum á ég eftir að sakna sárt.
Ég get þó glatt mig við að það styttist í Gay Pride 2004!!! Jei, partay! Það var svo gaman í fyrra man ég, skrúðgangan var frábær og í ár mun hún án efa alls ekki vera verri. Svo finnst mér best að hinn frábæri Tómas Þórðarson mun koma og spila á útitónleikunum í Lækjargötu. Fyrir þá sem hugsa "wtf hver er Tómas Þórðarson?!" þá skal ég segja ykkur það. Hann er töffarinn sem söng lagið Shame on you fyrir hönd Dana í Eurovision núna síðast. Ég skemmti mér svo á Gay Pride, ég er bara farin að hlakka mjög mikið til. Nema í fyrra var rigning og morðregnhlífar, það dró mikið úr skemmtuninni.  Vonandi endurtekur það sig ekki.  Samt verð ég að viðurkenna að ég hef bara farið einu sinni á Gay Pride. Það var ekkert svona í Danmörku, og ég missti af þessu 2001 og 2002. Vá, við fluttum aftur til landsins árið 2001. Það eru meira en 3 ár síðan. Jájájá, tíminn líður hratt á gervihnattaöld.
 
Haha, ég var að horfa á mig, Sögu, Völu og Herdísi í Hjartslætti. Gott stöff. Nú munu allir strákar sem horfðu á okkur þrá okkur. Ég bara veit það!
Annars leiðist mér mjög mikið núna, er bara að hlusta á Simon & Garfunkel og tölvast.  Ætlaði að biðja Sögu um að koma í labbitúr með mér, en neinei, þá er hún bara uppi í bústað eitthvað að þvælast.
 Ég verð allt of auðveldlega eirðarlaus. Hvar eru allir skemmtararnir mínir? Gefið ykkur fram, hvar sem þið eruð! Nei, ekki? Jæja, segjum þetta þá bara gott í bili.



föstudagur, júlí 09, 2004

Þetta góða veður sem hefur verið síðustu tvo daga hefur tvenn áhrif á mig: Ég verð glöð og ég fæ löngun til að hanga á Austurvelli í góðra vina hópi. Síðustu tveir dagar hafa verið mjög skrautlegir, í gær fórum við Sigrún og Vala að hitta hana Sögu á Austurvelli, og hittum við þar fyrir ýmsa róna, m.a. mann sem sagðist vera tvíburabróðir Lalla Johns. Maðurinn var mjög stoltur af því.
Í dag fórum við aftur niður á Austurvöll, og í þetta skipti var hún Herdís einnig með okkur. Við sátum þarna á teppi og vorum bara að skemmta okkur mjög vel, og þá allt í einu sjáum við fólkið í Hjartslætti nálgast okkur. Þá yrðir einn gaurinn á okkur (ég man ekki hvað hann heitir) og biður okkur um að segja nokkrar pikk-öpp línur. Jújú, við gerum það, og var þetta hin mesta skemmtun, við fórum að spjalla smá við þennan gaur, sem er alls ekki ljótur, og við komumst að því að hann var í MR á fornmáladeild I, og mældi hann sterklega með henni þegar ég spurði hann hvort það væri málið. Ég er einmitt mjög mikið að spá í hvort ég eigi að velja, fornmála eða nýmála. En já, það má sem sagt sjá okkur í miklu stuði, gerandi okkur að algjörum fíflum í næsta þætti af Hjartslætti, sem verður á fimmtudaginn.
Áðan hittum við einnig hóp af mjög hressum og kátum verktökum, sem tylltu sér hjá okkur grasinu, með bongótrommu og gítara, og hófu að spila til okkar ástaróð. Þeir spiluðu líka fullt af öðrum lögum, og einnig má benda á að nokkrir í þessum hópi voru mighty fine. Þetta voru sko ekki gamlir sveittir verktakar, heldur ungir, stæltir og hreinir verktakar. Við sátum með þeim í svona klukkutíma, enda má rólega fullyrða að þegar fallegur verktaki spilar til manns ástaróð þá stendur maður ekki upp og labbar í burtu, ó nei. En ef þetta hefði nú allt gerst í rigningu og vondu veðri, þá hefði þetta örugglega ekki verið eins sjarmerandi. Ég held að sólin hafi góð áhrif á mann. Ég er ennþá í mjög góðu skapi, ég mundi án efa fara að hoppa um íbúðina ef mamma og pabbi væru ekki komin heim.
Einnig kætir það mig að hún Sigrún hefur loksins snúið heim úr þessari ferð sinni til Möltu, og er hún orðin hvíthærð. Enda er miklu betra að vera á Íslandi en ælandi og grátandi á Möltu.
Jæja, ég hef voða lítið að segja, sólskinsbloggin mín eru ekki þau skemmtilegustu. En samt, sólin skín og ég ætti hvort sem er ekkert að vera að blogga. Ég ætti að vera úti að leika mér! Best að fara að gera eitthvað þannig.

mánudagur, júlí 05, 2004

Jæja, Auður er bara að missa sig, svo ég hef ákveðið að gerast leiðinlegur og vondur gestgjafi og blogga hérna smá.




Uppskrift að góðum sólskinsdegi í boði Hildar:
1. Vaknaðu, hlustaðu á þýskt teknó og klæddu þig. Gleymdu ekki að hoppa smá um íbúðina.
2. Mældu þér mót við 1 stk. Völu
3. Farðu niður í banka, ekki gengur að vera peningalaus.
4. Hjólaðu upp í Hlíðar í allt of þykkri úlpu, sem veldur því að þú deyrð næstum því úr hita á leiðinni. Alls ekki má gleyma að hafa sem minnst loft í dekkjunum á hjólinu, það gerir þetta allt að rosalegri áskorun.
5. Bankaðu nær dauða en lífi upp á hjá Völu, heimtaðu drykk og farðu svo með henni í Kringluna. Þar er farið í Mótor, Vala kaupir bol og þú tekur út pening og borgar Völu skuldir þínar.
6. Leggið af stað niður í bæ að hitta 1 stk. Aldísi.
7. Labbið smá Laugarveg, farið í Skífuna að kaupa Franz Ferdinand diskinn. Finnið Dark side of the moon og The Police Greatest Hits, þráið þá en ekki kaupa þá. Helvítis nískupúki!
8. Nú á að kaupa mat á Subway, fara svo með hann á Austurvöll. Þar sest maður niður og spjallar, borðar og sleikir sólina.
9. Næst er haldið í ísbúðina á Hjarðarhaganum, og svo er klukkan allt í einu að verða sjö, og þá er kominn tími á að halda heim á leið. Þetta eina stykki af Völu er þó ennþá nothæft og kemur með þér heim.
10. Þessi síðasti hluti sólskinsdagsins er ennþá ókominn, þannig að hér má bara ráða hvað skal gera.

Jæja, þetta var aldeilis skemmtilegt, ég veit að þið þráið að vita hvað ég gerði í dag!

föstudagur, júlí 02, 2004

Dagurinn í gær var bara ekki minn dagur! Byrjaði alveg ágætlega, en svo kom vesen, bögg og almennt erfiði. Hellti niður salatsósu í vinnunni, hélt ég væri búin að ganga frá öllu en neinei, átti þá fullt eftir, það var erfitt að hjóla heim og ég var bara brjáluð! Og enginn elskaði mig. Hjólaði beint til hennar Furu eftir vinnu, var þar að fá heljarinnar útrás, það hjálpaði. Svo fór ég til hennar Völu, fékk íste og súkkulaði, þá leið mér betur plús allir fóru að elska mig aftur. Þannig að ég er bara glöð aftur núna.
Svo þegar ég kom heim þá sá ég bréf frá MR. Ég vissi um leið að þetta var bréfið sem ég hef beðið eftir síðan að prófin voru búin. Þetta var svarið við beiðni minni um að skipta yfir á málabraut. Ég var orðin soldið stressuð vegna þess að það var nú frekar langt síðan ég skilaði þessari umsókn, og ég verð að viðurkenna að ég var ekki beint afslöppuð þegar ég las bréfið, en það reyndist óþarfi því þetta reddaðist alveg. Ég fer sem sagt alveg pottþétt á málabraut á næsta ári, partí!
Hins vegar var ég alls ekkert sátt við hvernig þetta bréf var orðað. Þeir hefðu alveg eins getað skrifað eitthvað í þessa átt: "Jæja, við sjáum að þú kannt ekki neitt í stærðfræði, en við ræddum málin í rólegheitunum og ákváðum að leyfa þér að halda áfram, bara á málabraut. Þetta máttu aldrei gera aftur!"
OK, ég viðurkenni að ég kann ekki neitt í stærðfræði, en hvað með að líta á björtu hliðarnar? Ég hefði skrifað þetta svona: "Auðvitað færðu að fara á málabraut, fallega, sniðuga stelpa, því að þú ert með frábærar einkunnir í tungumálum! Jei! Ekki hafa áhyggjur af algeru kunnáttuleysi þínu í þessari stærðfræði frá helvíti sem er kennd á náttúrufræðibraut, það er bara bull og vitleysa. Slástu bara í hópinn með málabrautarfólkinu og njóttu þín!!"
Allavega, þetta er ágætt samt. Og nú út í allt aðra sálma.
Þar sem ég er ung að aldri er ég alltaf að læra nýja hluti. Ég dag lærði ég að það er ekki sniðugt að hjóla með Nóatúnsplastpoka yfir hnakknum á hjólinu þínu, allavega ekki þegar þú ert í ljósum gallabuxum. Jú, nema náttúrulega að þér finnist smart að vera rauð(ur) á rassinum. Ekki finnst mér það. Svo lærði ég líka að hinir ljúfu tónar lagsins A day in the life með Bítlunum gera jafnvel hinn leiðinlegasta hjólreiðatúr í vinnuna í rigningu klukkan kortér í 11 um morguninn alveg mjög þolanlegan. Þetta var morgunlexían, mig minnir nú samt ekki að ég hafi lært neitt sérstakt í dag. Ég held samt að seinna í kvöld eigi ég eftir að læra að það að drekka úr stút úr tveggja lítra Pepsi Max flösku teljist ekki til kvöldmatar.
Svo fann ég launaseðilinn minn áðan, og ég á bara slatta af pening núna. Sirka 64.000 kall. Nú get ég loksins borgað skuldir mínar. Já, það er dýrt að eiga engan pening.
Vá svo lenti ég tvisvar sinnum í dag í svona aldursruglingi. Tveir vinnufélgar mínir héldu að ég væri 19 ára. Það er gaman. Þó er markmið mitt í lífinu ekki að reyna að líta út fyrir að vera eldri... Ég held hreinlega að þessir ruglingar stafi af því að það er ekki almennilega hægt að ákveða aldur fólks þegar það er klætt í spítalafatnað. Fötin skapa náttúrulega manninn, hvort sem það er 16 ára stelpa eða 35 ára kall.

Jæja, ég held að þetta sé orðið ljómandi gott hjá mér. Núna skulu allir sem lásu þetta allt klappa sér á bakið og hlusta á Can't stand losing you með hljómsveitinni The Police. Gott stöff.
PS: Þetta blogg er tileinkað henni Auði. Vonandi svalaði þetta bloggþorsta þínum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?