<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júní 28, 2004

Mér finnst gaman þegar hægt er að slaka á í vinnunni. Þar er komin vinna við mitt hæfi. Tók mér örugglega tveggja tíma kaffipásu með henni Tinnu vinnufélaga í dag, við fórum út að viðra okkur, sátum inni í sófa, sátum úti á svölum borðandi ís, og borðuðum líka bara margt annað. Já, ég fæ ókeypis ís í vinnunni. Einnig fæ ég annan mat ókeypis, kökur og venjulegan mat sem sagt. Ég endurtek, þar er komin vinna við mitt hæfi!
Þar sem ég fæ nú allan þennan mat ókeypis, hefur löngum mín til að bragða á nýjum og framandi matartegundum aukist. Ég er jú ekki að eyða peningum í þetta. Ég hef komist að því að spínatrúllur á la Landsspítalamötuneyti eru mjög góðar, en allur fiskur sem þaðan kemur er það alls ekki! Enda er ég ekkert mikið fyrir fisk almennt. Í dag smakkaði ég suðrænan ávaxtagraut. Mér fannst hann bragðast eins og barnamatur. En barnamatur er alls ekkert það slæmur (þetta veit ég út af því að ég á litla frænku), þannig að þetta var ekkert ónýtur matur.
En svo eftir þetta langa kaffihlé þá þurfti ég að vera alveg alein í matsalnum, sem er nú ekkert sérstaklega skemmtilegt. Og þar sem allt sem hægt var að gera sem tengdist vinnunni minni fólst í því að yfirgefa matsalinn, gat ég hreinlega ekkert gert, því ekki gengur að skilja matsalinn eftir eftirlitslausan. Þar sem ég var í þessari slæmu klípu ákvað ég að skella Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band í tækið og halda áfram að tjilla. Afgreiddi svona 3 á þeim klukkutíma sem ég sat þarna.
Þar sem þeir sem nenntu að lesa þessa sögu eru örugglega núna að hugsa "Fokking beyglan er bara að dúlla sér á meðan ég vinn baki brotnu, grrrr!", vil ég benda á að svona er þetta alls ekki á hverjum degi. OK? Gott.
Á morgun þarf ég að vakna klukkan 6, vinna svo frá 7 til 3. Ég átti að vera í fríi, en ó nei, ég var beðin um að vinna fyrir veiku stelpuna. Ég vil taka fram að venjulegur vinnutími minn er frá 11 til 8, þannig að ég er ekki vön að vakna svona snemma.Robert Plant var sexí tík. Ég vil mína menn í þröngum buxum, leðurbuxum helst. En þessar sem hann er í á þessari mynd duga nú líka alveg ágætlega.
Gott lag með Led Zeppelin er Thank You, látum það bara vera lag dagsins. Og þetta voru lokaorð dagsins.

laugardagur, júní 26, 2004

Sniðugt fólk gerir eins og ég. Kemur heim upp úr tvö nóttina fyrir vinnuna sem er klukkan 11, er þar í klukkutíma, fer svo veikt heim, fer að sofa og vaknar klukkan hálf fimm. Og svo má ég ekki gleyma að það er náttúrulega alveg stranglega bannað að borða, aðeins má drekka te og vatn. Jú, reyndar borðaði ég eitt eplastykki.
Annars er ég öll að detta inn í fótboltann núna, nema mér er alveg sama hver vinnur. Það er samt ekkert sérstaklega gaman að horfa á fótbolta, þetta er alltaf þannig að eitt liðið er með boltann, hleypur upp völlinn, klúðrar einhverju og þarf að byrja alveg upp á nýtt. Handbolti og körfubolti er betri að því leyti að þarna er skorað næstum því í hvert einasta skipti sem eitthvert lið nálgast markið. Fótboltinn væri þess vegna alveg laus við alla skemmtun ef það væri ekki fyrir svona einn og einn sætan mann sem birtist stundum á skjánum og jafnvel fer úr að ofan.
Mínir uppáhalds eru þeir Thierry Henry og Christiano Ronaldo. Nema sá síðarnefndi mætti alveg losa sig við eyrnalokkana sem hann var með síðast þegar ég sá hann.

Þetta er alltaf jafn gaman. Líka gaman að draumur minn um að eignast miða á Lou Reed er að verða að veruleika. Ég held að það væri óvitlaust að fara að borða eitthvað núna.

þriðjudagur, júní 22, 2004

Ó já, sólin skín og það er steikjandi hiti úti. Og hvað gerir þá snillingur á borð við mig...VEIKIST! Það er náttúrulega tilvalið. En ég held þó að þetta sé bara smá kvef sem fer bráðum. Fór samt veik heim úr vinnunni í dag, bara til öryggis.
Annars var gærdagurinn góður dagur, fór með Völu niður í bæ, keypti mér buxur og svo fórum við á Austurvöll og vorum þar í brjáluðum hita og sáum fullt af missjarmerandi fólki. Þar sem að við erum nú að tala um sumar og það sem hefur eitthvað með sumar að gera, þá verð ég að bæta einu við: íste er svo sorglega vanmetinn drykkur! Við Vala elskum íste, en ég veit um mjög fáa aðra sem drekka það. Við löbbuðum langa leið til að kaupa það í gær, þetta er til á svo fáum stöðum og selt á allt of háu verði! Ég segi að það ætti að breyta þessu, fara bara að auglýsa það meira og þá selst það.
Það jafnast ekkert á við að sitja úti í sólskininu í góðra vina hópi og drekka íste.sunnudagur, júní 20, 2004

Jæja, kyssulegasti Bítillinn er víst George Harrison, sem rétt vann Ringo með einu atkvæði. Enda er hann svo sætur...En já, sumarfrí ha? Ó nei! Ég hef aldrei verið í eins frílausu fríi. Alltaf eitthvað vesen, stress eða þreyta. En ok, ég sé fram á minni vinnu í næstu viku. Þannig að þetta reddast. Þá er það bara vesenið og stressið. Það er óþarfi að stressast meira í bili, en eitthvað af þessu veseni er víst komið til að vera. En ég er samt glöð í hjartanu, og það er jú fyrir öllu.
Annars held ég að því seinna sem ég fer að sofa, því minna þreytt verð ég þegar ég vakna. Allavega kom ég heim 03:40 í gær, og ég vaknaði held ég upp úr 11 í morgun, og ég var alls ekki þreytt. Horfði bara á Mona Lisa Smile. Svona er gaman að vera ein heima í tvær vikur. Já, mamma og pabbi fóru í gær í tveggja vikna ferðalag um landið, og ekki kvarta ég. Núna hef ég fullt af tíma til að prófa þessa nýju kenningu mína án þess að nokkur komi inn til mín og fari að klappa mér að ástæðulausu.
Svo sá ég eitt stórkostlegt í gær...Lou Reed er að koma til landsins í ágúst! Unaðsdraumur!!
Svona á það að vera...

þriðjudagur, júní 15, 2004Persónulega mundi ég taka George... Hvað með ykkur?

sunnudagur, júní 13, 2004Þetta er eitthvað svo ógurlega fyndið!
Og Got to get you into my life er svo gott lag!!

föstudagur, júní 11, 2004

Í dag byrjaði ég í nýju vinnunni á Landsspítalanum. Nú er ég að vinna í matsalnum og fæ að vera með derhúfu í staðinn fyrir hárnet/-klút. Jei! En hözzl-átfittið/spítalaklæðnaðurinn er enn sá sami...
Þetta er eitthvað frábrugðið gömlu vinnunni, fyndið að maður getur reynt svo miklu meira á sig á 4 tímum en 9. En konurnar niðri í eldhúsi gátu ómögulega verið án sterku stelpunnar (það er sko ég) þegar verið var að ganga frá, þannig að ég fékk að fara niður í síðasta skipti og ganga frá öllum áhöldunum. Unaðsdraumur.
Svo lenti ég í þrem undarlegum aldursruglingum í dag. Fyrst spurði kona sem ég er að vinna með við hvað maðurinn minn væri að vinna!! Ég benti henni nú á að ég ætti engan þannig þar sem ég væri bara sextán ára. Seinna var svo nýi yfirmaðurinn minn að spyrjast fyrir um aldur minn, og varð hún mjög hissa þegar ég sagðist vera á sautjánda ári. Hún hélt að ég væri á hennar aldri, en sjálf er hún 20 að verða 21. Enn seinna sama dag var svo samstarfsstúlka mín að nafni Lydia niðri í klefa með mér, og spurði ég hana hvað hún væri gömul, og hún sagðist vera 19. Þá spurði hún hvað ég væri gömul, og hún missti bæði nef og munn þegar ég sagðist vera 16, hún sagði að hún hélt að ég væri 19 eða 20. Mér finnst þetta svo fyndið. Skil kannski alveg að fólk heldur að ég sé 18, en þetta er svolítið gróft.
Foreldrar mínir eru að missa vitið! Þau kunna ekki að haga sér! Ég sit hérna inni í herberginu mínu í sakleysi, en þau eru alltaf að koma inn og bulla eitthvað. Stundum segja þau jafnvel ekki neitt, koma bara inn, klappa mér, og fara svo út aftur. Þetta er fökt öpp. Og þeim finnst bara fyndið þegar ég horfi á þau með "wtf hvað er í gangi?!"-augnaráðinu mínu...ég er ekki nógu ógnvekjandi.

Svo mæli ég með myndum frá kökuboðinu sem var hjá Aldísi síðustu helgi. Allavega eru þetta góðar myndir fyrir þá sem vilja sjá Rút í gallajakkanum mínum og stærðarmuninn á Sögu og Völu.


miðvikudagur, júní 09, 2004

Endurtökuprófið heyrir nú sögunni til. Við tekur sumarfrí og vinna. Þetta er eintómt vesen með vinnuna, ég nenni þessu ekkert. Vinnuumhverfið er þó skrautlegt, það má eiga það. Það eru þessar útlensku konur sem kalla mann bara "elskan", og hægt er að hafa mjög gaman af þeim, svo er útlenski kallinn sem hefur gaman af því að laumuperrast, gamli kallinn sem er voða hjálpfús og vænn og jafnaldrar mínir plús nokkrir fyrrverandi 10. bekkingar.
Mér finnst (eins og mörgum öðrum) að það ætti að vera til draumavinna handa hverjum og einum, ekki bara eitthvað svona rugl. Mín draumavinna væri...hmmmm, ég held að mér sé bara ekki ætlað að hafa gaman af því að vinna. Helvítis letingi er ég.
Hins vegar finnst mér skemmtilegast í vinnunni hvað ég er miklu sterkari en allar stelpurnar/konurnar þarna. Og ég er ekki einu sinni sterk. Í dag tókst mér jafnvel að lemja eina stelpuna í framan, en hún fann víst mikið til. En já, það er gaman að geta lyft kössum sem þær geta ekki lyft, þá virka ég mun duglegri en ég er.

Ég hef allavega ekkert meira að segja, vegna vinnunnar hefur ekkert athugunarvert gerst nýlega.

Lag dagsins: Darts of pleasure með Franz Ferdinand. Gott stöff!


þriðjudagur, júní 01, 2004

Fóbíur er eitthvað sem hefur fangað áhuga minn nýlega. Það virðast næstum allir þjást af einhvers konar fóbíum. Einnig eru til margar mjög fyndnar fóbíur sem hafa skemmt mér mjög. Lítum nú aðeins á:

Sjálf þjáist ég af einni fóbíu, cleithrophobiu, sem er lyftuhræðsla. Ég fokkin hata lyftur!!!

Svo þekki ég nú nokkrar manneskjur með fóbíur, og sem dæmi má nefna:

Vala: Hún þjáist af pediophobiu, eða dúkkufælni. Einnig má segja að hún sé með hálfgerða nyctophobiu, eða myrkfælni. Aumingja Vala.

Sigrún: Já, hún fékk nýlega lachanophobiu, sem er hræðsla við grænmeti. Svona fer fyrir fólki sem vinnur of lengi við að rækta og fikta í þessu.

Sölvi: Hann viðurkenndi nýlega að hann væri með phronemophobiu, sem sagt hræðslu við að hugsa. Já það útskýrir nú ansi margt, haha haha haha!

Rútur: Það má náttúrulega ekki gleyma honum, hann er með hina sígildu arachnophobiu, en flestir vita að þá er maður hræddur við köngulær. Þess má einnig til gamans geta að hann er líka með beikon-fetish, en þá finnst manni gaman að stunda alls kyns kynferðislegar athafnir á meðan maður snertir, borðar eða horfir á beikon. Ég held að það sé fyndið að beikon-slappa fólk!

Katla: Hún systir mín er nú meiri ræfillinn, hún er með selachophobiu (hákarlafóbíu), hydrofóbíu (vatnsfóbíu, reyndar svona hálfgerð drukknunarfóbía) og algiophobiu, sem er sársaukafóbía. Og þetta er bara toppurinn á ísjakanum gott fólk.

Marta: Greyið litla þjáist af spheksophobiu, því að hún hoppaði í barnæsku beint á vespubú, og fékk í kjölfarið fóbíu fyrir þessum ógeðslegu kvikindum.


Jæja, þetta er nú svona það helsta sem mér dettur í hug, þið megið svo alveg bæta einhverju við á kommentakerfinu góða.

Svo eru þetta nokkrar fóbíur sem fengu mig til að grenja úr hlátri:
Hippopotomonstrosesquippedaliophobia: Hræðsla við löng orð.
Anglophobia: Hræðsla við England og enska menningu.
Arachnephobia: Hræðsla við að hnetusmjör festist í gómnum.
Dikephobia: Hræðsla við réttlæti.
Ephebiphobia: Hræðsla við unglinga (ég var með þannig þegar ég var lítil).

Talandi um hluti sem fá mig til að grenja úr hlátri, þá mundi ég áðan eftir spurningu sem var einu sinni lögð fyrir mig, og var hún svona: "Hefurðu einhvern tíman ælt svo mikið að ælan kom út úr nefinu á þér?" Þetta fannst mér svo fyndið rétt áðan, ég grét og grét, og spurði hann Sölva hvernig það ætli sé að æla svo mikið að ælan kemur út um augun. Þetta er gott dæmi um geðheilsu mína þessa dagana. Læt ég þetta bara gott heita í bili. Vonandi var eins gaman fyrir ykkur að lesa þetta og það var fyrir mig að skrifa þetta. Hohoho...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?